Látum kærleikann sigra

Styrkveitingar fyrir árið 2025 verða tilkynntar 2. febrúar næstkomandi, á afmælisdegi Bryndísar Klöru

Bryndís á Ísafirði
Bryndís við útskrift úr Salaskóla 2023

Banki: 515-14-171717 - Kennitala: 430924-0600


Minningarsjóður Bryndísar Klöru var stofnaður til að heiðra og varðveita minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést í kjölfar hnífaárásar á menningarnótt í Reykjavík í ágúst 2024. Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja við almannaheillaverkefni sem miða að því að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.

Sjóðurinn mun leggja áherslu á að veita styrki til fræðslu, rannsókna og vitundarvakningar til að koma í veg fyrir að slíkar hörmungar endurtaki sig.


Úthlutanir 2025 úr minningarsjóði Bryndísar Klöru

Stjórn Minningarsjóðs Bryndísar Klöru hefur lokið við val á þeim verkefnum sem hljóta styrk úr sjóðnum fyrir árið 2025. Markmið sjóðsins er að stuðla að samfélagi þar sem samkennd, samvinna og jákvæð samskipti eru í forgrunni, með áherslu á forvarnir gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna.
Að þessu sinni hljóta fimm verkefni styrk úr sjóðnum:


  • Kári Einarsson og Embla Bachmann - Gerð fræðsluefnis til dreifingar

    Gerð myndefnis og fræðsluefnis sem er sniðið að öllum aldurstigum grunnskólanemenda til að efla samstöðu og samkennd nemenda frá upphafi skólagöngu sinnar. Mynd- og fræðsluefnið verður byggt á markmiðum sjóðsins. Verkefnið miðar að því að koma jákvæðum áhrifum á framfæri á skýran og aðgengilegan hátt fyrir börn og unglinga.


  • KFUM & KFUK – Kærleiksnámskeið

    Reglulegir viðburðir á námskeiðum KFUM og KFUK með fræðslu, hópefli og verkefnum sem stuðla að samkennd og sjálfsstyrkingu. Nemendur útskrifast sem „Riddarar kærleikans“ og bera áfram boðskap umhyggju og jákvæðra samskipta.


  • Klébergsskóli o.fl – Sautján myndir

    Ljósmyndasýning með sautján myndum sem nemendur taka og tengjast samkennd og samvinnu. Verkefnið miðar að því að dýpka skilning barna og ungmenna á gildi jákvæðra samskipta. Sýningin mun þróast og flytjast á milli skóla og þannig halda boðskapnum lifandi í sem flestum skólum á Íslandi.


  • Vinkonur Bryndísar Klöru – Viðburður í Reykjavíkurmaraþoninu á Menningarnótt

    Vinkonur Bryndísar fá styrk til að standa straum af kostnaði við boli og annan varning merktan Bryndísi Klöru og sem seldur verður til styrktar sjóðnum. Vinkonurnar munu jafnframt vinna í að fá sem flesta til að hlaupa til styrktar minningarsjóðnum auk þess sem vinkonurnar munu skipuleggja sérstakan viðburð/athöfn fyrir þá sem hlaupa til styrktar minningarsjóðnum.


  • Örninn líknarfélag

    Styrkbeiðni til að styðja við sumarúrræði og úrvinnslu fyrir börn sem hafa misst ástvini. Meðal verkefna eru listasmiðjur, sorgarhópar og stuðningur við fjölskyldur sem hafa gengið í gegnum erfiða lífsreynslu.


Við hjá Minningarsjóði Bryndísar Klöru viljum þakka öllum umsækjendum sem sóttu um styrk í ár. Fjölbreytileiki og eldmóður í verkefnum sýnir ótvírætt hversu margir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag fyrir börn og ungmenni á Íslandi. Þó ekki hafi öll verkefni hlotið styrk að þessu sinni, hvetjum við umsækjendur til að halda áfram með sínar hugmyndir og sækja um aftur í framtíðinni.


Minningarsjóðurinn er á almannaheillaskrá Skattsins og munu einstaklingar geta nýtt framlög sín á árinu til skattafrádráttar í framtali næsta árs, að hámarki 350.000 kr.

Hægt er að leggja inn framlög á reikning 0515-14-171717, kennitala 430924-0600

Framlög fyrirtækja til sjóðsins eru frádráttarbær upp að 1,5% af heildartekjum ársins.


Bryndís og Vigdís Edda
Bryndís var mikill dýravinur

Endilega fylgist með fréttum af sjóðnum hér á síðunni og jafnframt á samfélagsmiðlum.
Facebooksíðu sjóðsins má finna hér.